Sólin hefur komið vísindamönnum á óvart sem höfðu spáð því að virkni sólar myndi stóraukast fyrir árið 2012 með miklum sólgosum og fjölgun sólbletta. Svo virðist hins vegar sem hið andstæða sé að gerast og að sólin stefni í minnstu virkni sem sést hefur frá 17. öld.
Þrjár rannsóknir sem birtar voru í Bandaríkjunum í dag benda til þess að hringrás sólbletta sé nánast að stöðvast. Blettirnir séu að dofna og minni virkni sé í kringum pólana.
„Þetta er í hæsta máta óvenjulegt og óvænt,“ segir Frank Hill, aðstoðarframkvæmdastjóri rannsóknarstofnunar sem fylgist með sólvirkni.
Virkni sólar eykst og minnkar á um ellefu ára tímabili. Er virknin í hámarki og í lágmarki á milli pólskipta á sólinni sem eiga sér stað á 22 ára fresti. Kanna sérfræðingar nú hvort að minnkandi virkni nú geti verið upphafið að annarri svokallaðri Maunder-lægð sem var 70 ára tímabil á milli 1645 og 1715 þegar nær engir sólblettir sáust.
Segja vísindamenn að þetta gæti haft áhrif á allt frá geimrannsóknum til veðurfars á jörðinni.