Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, ákvað nýverið að flokka farsíma með „hugsanlegum krabbameinsvöldum“ vegna geislunar frá þeim, þeir séu jafn varasamir og kaffi og klóróform. En rannsóknir síðustu árin hafa verið afar misvísandi, sumar hafa sýknað farsímana. Vísindamenn við Tampere-háskóla í Finnlandi hafa nú sýnt fram á að þeir sem nota farsíma mikið séu ekki líklegri en aðrir til að fá krabbameinsæxli á svæðum í innan við 5 cm fjarlægð frá síma í notkun.
Um 90% af geisluninni frá gemsum mælist nokkra cm frá símanum. Niðurstaða rannsóknarinnar þykir því benda til að gemsinn sé alls ekki krabbameinsvaldur, segir í frétt Reuters. En niðurstaðan er þó ekki endanleg, að sögn dr. Suvi Larjavaara, sem stýrði rannsókninni. Krabbamein geti verið lengi að myndast og aðeins 5% af þátttakendum í rannsókninni hafi notað farsíma í 10 ár eða lengur.