Leikendur Eve Online hafa mótmælt áformum CCP um að leyfa kaup á hlutum fyrir raunverulega peninga. CCP mun funda á næstu dögum með lýðræðislega kjörnu ráði spilara til að meta hvernig þessi mál verða kynnt í framtíðinni.
Eins og fram kom í frétt mbl. is síðasta sunnudag þá hafa mótmælendur óttast að þetta kunni að þýða að hægt verði að kaupa hluti með skjótum hætti fyrir alvöru peninga sem aðrir hafi til þessa þurft að eyða miklum tíma og fyrirhöfn í að verða sér úti um.
Mikil reiði er á meðal hóps spilara sem hafa hótað að hætta að greiða fyrir afnot af EVE Online í mómælandaskyni.
Jón Hörðdal Jónasson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, sagði í samtali við mbl.is að reiðin sem hefur blossað upp á síðustu dögum væri komin til vegna þriggja óskyldra mála.
Sagði Jón að spilarar muni geta spilað EVE Online eins og áður þar sem einu hlutir sem til sölu verða séu skrauthlutir og ekki nauðsynlegir. Verið sé að gefa fólki frelsi til að versla vörur fyrir persónur sínar í EVE.
Nýlega var ný risaviðbót kynnt í Eve Online leiknum sem byggir á því að spilarar geta séð líkama sinn „avataranna“. Höfðu spilarar beðið lengi eftir þessari nýjung með eftirvæntingu að sögn Jóns.
Verslun fyrir vörur var síðan opnuð þar sem spilarar geta keypt vörur eins og til dæmis föt fyrir sínar persónur til að gera sér kleift að aðgreina sig frá öðrum sem persónur og „raunverð“ er á þeim vörum.
Mikil óánægja virðist vera meðal spilara um verð þessara vara. Segir Jón að þessir hlutir geti haft sama gildi fyrir viðskiptavini eins og hlutir í raunveruleikanum og þess vegna séu þessir hlutir að seljast á sama verði.
Það hafi ekki orðin breyting á þeirri staðreynd að spilarar geta keypt sér hlut og selt fyrir EVE-peninga og síðan keypt sér skip innan EVE hagkerfisins, það hugtak hafi þegar verið til í leiknum.
Sagði Jón að mjög margir spilarar hafi keypt sér hluti og reynt með þeim leiðum að kaupa sér sigur.
„Leikurinn verður alltaf þannig að þú getur ekki keypt þér sigur“ segir Jón. Hins vegar snúist málið um hvaða leið sé best að fara til að leyfa spilurum að kaupa sér hluti án þess að þeir hafi forgang yfir aðra spilara.
Annað mál sem hefur ollið mikilli reiði meðal spilara er innihald fréttabréfs starfsmanna EVE Online. Fréttabréfið lak á netið sem og tölvupóstur sem Hilmar Veigar Pétursson sendi á alla starfsmenn.
„Gagnsæi er eitt af grundvallargildum starfsmanna CCP og á fréttabréfinu koma fram skoðanir starfsmanna og stjórnenda sem notaðar eru til þess að mynda heildarstefnu fyrirtækisins. Þegar upplýsingunum var leikið á netið tóku reiðir spilarar setningar úr samhengi sem ollu enn meiri reiði meðal spilara. Það sama gerðist með efni tölvupósts sem Hilmar sendi.“sagði Jón.
Þriðja málið sem hefur ollið spilurum mikla reiði er að þeir krefjast þess að stjórnendur CCP staðfesti að ekki verði hægt að kaupa sér hagnýta hluti „functional“ með peningum í framtíðinni og þannig muni geta fólk keypt sér sigur.
Segir Jón að leikjaframleiðslufyrirtæki eins og CCP geti ekki komið með slíka yfirlýsingu en fullyrðir að það verði aldrei hægt að kaupa sér sigur í EVE Online, hugsað verði fyrir því.
CCP hefur kallað til sín lýðræðislega kjörið ráð spilara alls staðar af heiminum nú í vikunni þar sem leiðir verða ræddar um hvernig kynningin á vörum sem til sölu verða í EVE verða kynntar.
Sú leið verði fundin sem spilarasamfélagið er mest sátt við og fréttatilkynningar verða sendar út í framhaldinu.
Jón hefur ekki sérstakar áhyggjur af því að margir muni hætta að spila leikinn vegna breytinganna í vöruúrvali í leiknum.