Heimsbyggðin þarfnast um 1,9 billjóna dala á ári næstu fjörtíu árin til að fjárfesta í umhverfisvænni tækni. Þurfa þróunarlöndin um helming þeirrar upphæðar til þess að koma til móts við hratt vaxandi matvæla- og orkuþörf að því er kemur fram í ársskýrslu efnahags- og félagsmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Segir í skýrslunni að þróunarlöndin hafi alls ekki nægilegan aðgang að fjármagni til að fjárfesta í umhverfisvænni tækni. Á síðustu tveimur árum hafi loftslagssjóður sem Alþjóðabankinn sér um úthlutað um 20 milljörðum dala. Það sé aðeins dropi í hafið fyrir þróunarlöndin sem þurfi að koma sér upp hreinni orku, vistvænum landbúnaðaraðferðum og tækni til þess að draga úr losun ólífræns úrgangs.
Þá hafi ríki heims ekki staðið við þær fjárveitingar sem samþykktar voru á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 2009.
„Ef umhverfisvæn tækni verður ekki bætt og dreift víðar á róttækan hátt tekst okkur ekki að snúa við eyðileggingu vistkerfisins og tryggja mannsæmandi líf fyrir allt mannkynið, nú og í framtíðinni,“ segir Rob Vos, höfundur skýrslunnar.