Facebook og Skype tilkynntu um samstarf fyrirtækjanna í dag en boðið verður upp á myndsímtöl á Facebook frá Skype.
Er talið að þetta sé gert í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu Google+ sem er í harðri samkeppni við Facebook samskiptavefinn. Á Google+ er boðið upp á slík símtöl en munurinn er sá að á Google+ er hægt að tala við marga í einu en einungis verður hægt að tala við einn vin á Facebook í einu.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Facebook og Skype vinna saman en Microsoft, sem er stór hluthafi í Facebook, er að kaupa Skype.
Þegar stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, kynnti samstarfið í dag greindi hann frá því að notendur Facebook séu komnir yfir 750 milljónir.