Véfengir kosti vatnsþambsins

Ósannað er að mikil vatnsdrykkja sé heilsusamleg.
Ósannað er að mikil vatnsdrykkja sé heilsusamleg. mbl.is/Kristinn

Mikið vatnsþamb er ekki jafn heilsusamlegt og fullyrt hefur verið fram, að því er breski læknirinn Margaret McCartney skrifar í British Medical Journal. Hún skrifar greinina í tilefni af ársfundi samtakanna Hydration for Health (H4G) í bænum Evian í Frakklandi.

Fyrirtækjasamsteypan Danone stofnaði H4H samtökin en hún selur m.a. flöskuvatn undir merkjunum Evian og Volvic að sögn McCartney. 

Hún segir að ráðlegging um að drekka 1,5-2 lítra af vatni á dag skorti vísindalegan stuðning og vitnar í leiðara úr vísindariti bandarískra nýrnasérfræðinga frá 2008. Þar segir m.a. að engar skýrar sannanir séu fyrir kostum aukinnar vatnsdrykkju. 

Norski vefurinn forskning.no fjallar um grein McCartney og ber efni hennar undir Johanne Sundby, prófessor í lýðheilsufræðum við Óslóarháskóla. Hún segir að ekki hafi verið færðar neinar sönnur á heilsusamleg áhrif þess að drekka mikið vatn.

„Það leiðir fyrst og fremst til þess að maður þarf að pissa meira,“ segir Sundby prófessor. „Það gefur ekki betri húð, hjálpar ekki við að hreinsa líkamann af úrgangsefnum og gefur ekki meiri einbeitingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert