Óráð um fóstureyðingar

Þunguðum konum á Bretlandi er boðið upp á misvísandi upplýsingar …
Þunguðum konum á Bretlandi er boðið upp á misvísandi upplýsingar um fóstureyðingar. mbl.is

Ýmsar óháðar ráðgjafastofur fyrir þungaðar konur á Bretlandi, oft á vegum trúarhópa, beita hræðsluáróðri, gildishlöðnu tungumáli og ónákvæmum upplýsingum gegn fóstureyðingum. Hefur rannsókn góðgerðasamtaka leitt þetta í ljós en bresk stjórnvöld íhuga nú að eftirláta sjálfstæðum stofnunum ráðgjöf á þessu sviði.      

Samtökin sendu ungar konur sem þóttust vera á fyrstu stigum meðgöngu og sóttu sér ráðgjöf á tíu slíkum stofum sem kristin félög og önnur sem eru andsnúin fóstureyðingum reka. Hundruð slíkra stofa eru reknar utan við breska heilbrigðiskerfið. Gætu þær tekið við hlutverki opinberra stofnanna í að veita konum ráðgjöf á meðgöngu ef hugmyndir ríkisstjórnar Davids Camerons ná fram að ganga. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

Leiddi rannsóknin í ljós að á flestum stofanna væru vinnubrögð slæleg og ráðgjöfin byggðist á ósannindum. Þannig voru fóstureyðingar m.a. tengdar brjóstakrabbameini og því haldið fram að 85% þeirra færu þannig fram að fóstrið væri sogað út með nokkurs konar ryksugu. Auk þess stóð í bæklingi um fóstureyðingar að konurnar sem undir þær gangast þurfi að losa sig sjálfar við „líkið“.

Samtökin sem dreifðu þeim bæklingi til þungaðra kvenna fengu nýlega fulltrúa í nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar um kynheilsu.

Frétt The Guardian um rannsóknina.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert