Fjölmiðlar án landamæra lýstu yfir áhyggjum í dag yfir samstarfi breskra yfirvalda og kanadíska snjallsímaframleiðandans BlackBerry við að nota símkerfið til þess að bera kennsl á óeirðarseggi í Lundúnum og öðrum breskum borgum.
Segir í tilkynningu frá samtökunum að samstarfið veki upp spurningar um friðhelgi einkalífs eigenda BlackBerry síma og hverjar afleiðingarnar verða.
Ef upplýsingar sem framleiðandi BlackBerry, Research in Motion (RIM), veita yfirvöldum leiða til handtöku kemur upp spurning um lögmæti slíkra aðgerða.
Taka samtökin fram að þau vilji alls ekki draga úr alvarleika ástandsins í Bretlandi og nauðsynlegt sé að koma á röð og reglu þar á ný. Hins vegar sé skrýtið að vestrænt ríki beiti slíkum aðgerðum og þetta geti skapað fordæmi fyrir önnur ríki.