Stjarnfræðingar hafa fundið sérstaka plánetu í útjarði vetrarbrautarinnar en plánetan virðist vera demantur, sem er á braut umhverfis litla stjörnu.
Plánetan virðist vera mun þéttari en aðrar þekktar plánetur og er að mestu úr kolefni. Vegna þéttleikans hafa vísindamenn reiknað það út, að kolefnið hljóti að hafa kristallast og því sé stór hluti þessarar einkennilegu plánetu í raun demantur.
Plánetan er í 4 þúsund ljósára fjarlægð. Fram kemur í frétt Reutersfréttastofunnar, að talið sé að hún hafi áður verið þétt stjarna, sem hafi tapað ytri lögum sínum til tifstjörnunnar, sem hún er á braut um. Tifstjörnur eru litlar og dauðar nifteindastjörnur, sem eru aðeins um 20 km í þvermál og snúast mörg hundruð sinnum á sekúndu og senda frá sér geisla.
Stjarnfræðingar segjast ekki geta sagt til um hvernig þessi demantastjarna lítur út.
„Ég held ekki að þetta sé mjög bjartur hlutur sem við sjáum þarna," sagði Ben Stappers hjá háskólanum í Manchester.