A-vítamín bjargar mannslífum

Hægt væri að bjarga fjölda barna með því að gefa …
Hægt væri að bjarga fjölda barna með því að gefa þeim A-vítamín. Reuter

Hægt væri að bjarga lífi um 600 þúsund barna árlega ef börnum yngri en fimm ára í þróunarlöndunum væri gefið A-vítamín. Þetta eru niðurstöður breskra og pakistanskra vísindamanna, sem fóru yfir 43 rannsóknir gerðar á 200 þúsund börnum.

Rannsóknirnar þykja sýna að hægt sé að minnka barnadauða um 24% með því að gefa börnunum A-vítamín auk þess sem vísindamennirnir telja að tíðni mislinga og niðurgangs myndi einnig minnka.

Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um það bil 190 milljónir barna undir fimm ára aldri, víðsvegar í heiminum, þjáist af A-vítamínskorti en vítamíninu er dreift tvisvar á hverju ári til þeirra sem þurfa í yfir 60 löndum. Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni segja hins vegar að A-vítamín sé svo áhrifaríkt við að bæta lífslíkur barna að stjórnvöld og löggjafar ættu að tryggja að allir sem þurfi fái vítamínið.

„Þar til hægt er að grípa til annarra ráða ætti að gefa öllum börnum sem eiga á hættu að þjást af A-vítamínskorti bætiefni,“ sagði dr. Evan Mayo-Wilson við Oxford-háskóla, sem vann að rannsókninni, í samtali við BBC.

„Eftir aðeins eitt ár voru minni líkur á því að börnin sem tóku bætiefnin hefðu látist en þau sem tóku lyfleysu. A-vítamínbætiefni eru afar áhrifarík og ódýr í framleiðslu og dreifingu.“

Líkaminn þarf A-vítamín til þess að viðhalda góðri sjón og halda ónæmiskerfinu heilbrigðu en það fæst meðal annars með neyslu osts, eggja og fisks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka