Frá og með deginum í dag er ólöglegt innan Evrópusambandsins að framleiða og flytja inn 60 W perur með gamla laginu sem Edison fann upp fyrir yfir 100 árum síðan. Fyrirtækjum verður þó leyft að selja frá sér lagerinn en svo verða þau að kaupa inn nýjar tegundir ljósapera sem eiga að vera orkusparandi, það er halógen- og flúrljósaperur. Þær gömlu séu ekki nógu hagkvæmar þar sem þær tapi of miklum hita.
Gunther Oettinger, yfirmaður orkumála hjá ESB segist fullviss um að hin nýja kynslóð ljósapera dugi jafnvel og sú gamla. Uppfinning Edison sé ekki lengur í takt við tímann þegar komi að lýsingu þar sem þær nýti of mikla orku. Þegar búið sé að skipta yfir í hagkvæmari perur jafngildi umhverfisáhrifin því að sjö milljónir bíla séu fjarlægðir af vegum Evrópu.