Pabbar eru skemmtilegri en mömmur, sé eitthvað að marka nýja rannsókn sem gerð var á vegum Álaborgarháskóla. Þar voru börn á aldrinum 11 - 16 ára spurð hvort foreldrið væri fjörugra, segði fleiri brandara og fíflaðist meira. „Það gerir pabbi,“ var svar meirihluta barnanna.
„Við vitum að kímnigáfa karla er grófari og beinskeyttari og þess vegna tekst þeim betur að koma fyndni sinni á framfæri,“ segir Martin Führ þroskasálfræðingur, sem einnig hefur rannsakað fyndni, en hann stjórnaði rannsókninni.
Hann telur að skýringarinnar sé að hluta til að leita í hefðbundinni verkaskiptingu og kynhlutverkum karla og kvenna. Til dæmis virðist það vera auðveldara fyrir karla en konur að tala um kynlíf á léttum nótum.
„Sú fyndni, sem körlum hefur leyfst, er af meiri kynferðislegum toga en fyndni kvenna. Það er því eðlilegt að börnum á kynþroskaaldri þyki karlar miklu fyndnari en konur,“ segir Führ.
Hann telur að karlar muni halda þessari stöðu, sem fyndnari aðilinn, um ókomna framtíð. Til þess að það breytist, þurfi kynhlutverkin að taka miklum breytingum.