Stjarnvísindamenn hafa fundið aðra plánetu utan sólkerfis okkar sem er í hæfilegri fjarlægð frá stjörnu til að vera lífvænleg. Hugsanlegir íbúar þar þyrftu þó að kunna við sig í umhverfi sem líkist helst gufubaði.
Plánetan gengur undir nafninu HD85512b og hefur um 3,6 sinnum meiri massa en jörðin. Er talið að hitastigið þar sé á bilinu þrjátíu til fimmtíu gráður á selsíus og að andrúmsloftið sé afar rakt. Er plánetan í um 37 ljósára fjarlægð frá sólkerfi okkar. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.
Evrópskir stjarnvísindamenn tilkynntu í gær að þeir hefðu fundið fimmtíu nýjar plánetur utan sólkerfisins. HD85512b er ein af þeim og er sú eina sem er á svokölluðu lífbelti þar sem er hvorki of heitt né of kalt fyrir fljótandi vatn. Það er lykilforsenda fyrir lífi á borð við það sem þekkist á jörðinni.
Aðeins hefur ein önnur pláneta fundist sem er innan lífbeltisins við stjörnuna sem hún snýst um og fannst hún árið 2007. Ef pláneta á að geta myndað líf þarf hún einnig að vera á föstu formi eins og jörðin en ekki úr gasi eins og Júpíter, stærsta pláneta sólkerfisins.
Aðstæður á plánetunni eru ekki taldar lífvænlegar fyrir manneskjur en aðrar gerðir lífs, hugsanlega minni og samanreknari, gætu hugsanlega þrifist þar. Slíkar lífverur væru væntanlega nær jörðinni en menn þar sem þyngdarafl plánetunnar er 40 prósentum sterkara en á jörðinni.