Dómstóll í Suður-Afríku hefur komið í veg fyrir að stjórnvöld í landinu kaupi 11 milljónir smokka fyrir konur sem kaupa átti frá Kína. Ástæðan er sú að smokkarnir reyndust of litlir.
Fjármálaráðuneyti Suður-Afríku hafði gert samning við fyrirtæki sem nefnist Siqamba Medical sem ætlaði að kaupa smokka fyrir konur frá Kína.
Keppinautur Siqamba Medical, Sekunjalo Investments Corporation, leitaði til Hæstaréttar í Pretoríu eftir að hafa orðið undir í útboðinu og sagði að þeirra smokkar væru 20% stærri en þeir kínversku.
Dómarinn, Sulet Potterill, kom í veg fyrir samninginn við Siqamba þar sem smokkarnir væru of litlir og ekki gerðir úr réttu efni. Eins að umræddir smokkar hefðu ekki fengið viðurkenningu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO).
Hvergi í heiminum eru jafnmargir smitaðir af HIV og í S-Afríku en 5,38 milljónir íbúa landsins eru með vírusinn. Alls eru íbúar landsins 50 milljónir talsins.