Sir David Attenborough hefur bæst í hóp þriggja nóbelsverðlaunahafa og annarra fræðimanna sem hvetja bresk stjórnvöld til þess að banna kennslu á sköpunarkenningunni í skólum. Þá vilja þeir að þróunarkenningin verði kennd víðar í skólum. Breska blaðið The Telegraph segir frá þessu.
Ríkisstjórn Gordons Browns gaf á sínum tíma út þau tilmæli til breskra skóla að sköpunarkenningin væri ekki kennd en hvorki hún né núverandi ríkisstjórn íhaldsmanna og Frjálslyndra demókrata hafa gengið skrefið til fulls og lögfest þau tilmæli.
Á heimasíðu hópsins sem stendur fyrir herferðinni til að berjast gegn þeirri ógn sem meðlimir hans telja að vísindunum stafi af kenningunni er þess krafist að bannað verði að kenna hana eða vitræna hönnun, þ.e.a.s. að guðleg vera hafi skapað heiminn.
Segja meðlimir hópsins að hættan af sköpunarkenningunni hafi sjaldan verið meiri en nú þegar slíkar hugmyndir verða vinsælli í Bretlandi og bókstafstrúarmönnum hefur verið gert auðveldara að reka skóla í landinu.