Bandaríska geimferðastofnunin NASA segir, að gamalt gervitungl hafi fallið til jarðar snemma í morgun. Ekki sé hins vegar vitað nákvæmlega hvenær eða hvar.
Á vef NASA segir, að gervitunglið hafi fallið til jarðar á tímabilinu frá 3:25 til 5:09 í morgun en ekki sé vitað nákvæmlega um tímann eða hvar það lenti. Á þessu tímabili hafi gervitunglið verið að fara austur yfir Kanada og Afríku, Kyrrahafið, Atlantshafið og Indlandshaf.
Gervihnötturinn var fluttur út í geim árið 1991 með geimferjunni Discovery og var verkefni hans að rannsaka andrúmsloftið og ósonlagið. Á þessum tíma giltu ekki strangar reglur um úreldingu slíkra hnatta en samkvæmt núgildandi reglum verða þeir að brenna upp til agna þegar þeir koma inn í lofthjúp jarðar að nýju eða vera búnir vél sem gerir kleift að koma þeim það langt frá jörðinni að ekki sé hætta á að þeir falli niður.
Gervihnötturinn hætti að starfa árið 2005 og NASA lækkaði þá sporbaug hans til að flýta fyrir því að hann félli til jarðar.
Geimrusl er vaxandi vandamál en daglega er fylgst með um 20 þúsund málmbútum, sem sveima umhverfis jörðina. Þetta rusl gæti valdið skemmdum á alþjóðlegum geimstöðinni.