Hvernig á að pirra Facebook?

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook. NORBERT VON DER GROEBEN

Starfsmenn samskiptasíðunnar Facebook hafa ekki undan við taka saman þær upplýsingar sem vefurinn hefur safnað um notendur hans eftir að hópur á vefsíðunni Reddit hóf herferð undir titlinum „Hvernig á að pirra Facebook“. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

Samkvæmt sumum lögum um gagnavernd í Evrópu er Facebook skylt að senda þeim notendum sem þess óska þær upplýsingar sem vefurinn hefur tekið saman um hann, þar á meðal stöðufærslur, myndir, tengla og svo framvegis. Oftast þarf að senda gögnin á geisladiski. Á Bretlandi og á Írlandi verður diskurinn að vera sendur innan 40 daga eftir að beiðni berst.

Hafa notendur Reddit notfært sér þessi lög til þess að vekja athygli á athugasemdum við persónuvernd notenda Facebook. Hefur beiðnunum um upplýsingar rignt yfir starfsmenn Facebook undanfarið og hafa þeir neyðst til þess að senda notendum tölvupóst þar sem kemur fram að seinkun verði á að þeir fái upplýsingarnar. Fyrir venjulegan notanda eru upplýsingarnar yfirleitt PDF-skjal sem getur verið yfir þúsund blaðsíður að lengd og yfir 100 megabæt að stærð.






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka