Breskir læknar áforma nú að gera fyrstu klínísku rannsóknina þar í landi á e-töflum, til þess að komast að því hvort það geti hjálpað fólki sem glímir við áfallastreitu eftir hafa verið misnotað í æsku, nauðgað eða lent í stríði.
Sumir geðlæknar telja að ólögleg lyf eins og e-töflur, LSD og ofskynjunarsveppir geti nýst til að meðhöndla sjúklinga sem glíma við alvarlegar geðrænar truflanir og geta ekki horfst í augu við eigin vandamál. Hins vegar segja læknar að það sé nærri því ómögulegt að rannsaka áhrif lyfjanna vegna ótta almennings og reiði sem götublöð hafa vakið upp í garð ólöglegra lyfja.
„Ég er þeirrar ákveðnu skoðunar að sjúklingum og vísindamönnum hafi verið neitað um mörg lyf sem gætu hjálpað við meðferð vegna lyfjalaga. Lyfin voru gerð ólögleg í tilgangslausri tilraun til þess að fá ungt fólk til að hætta að neyta þeirra en fólk hefur ekki hugsað út í neikvæðar afleiðingar þess [að banna þau],“ segir prófessor David Nutt, geðlyfjafræðingur.
Nutt er í hópi breskra vísindamanna sem vonast til þess að geta líkt eftir rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum á sjúklingum sem þjást af áfallastreitu. Sú rannsókn var smá í sniðum en sýndi mikinn árangur. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.
Í rannsókninni í Bandaríkjunum var tólf sjúklingum af tuttugu sem höfðu verið í meðferð og á lyfjum í 19 ár að meðaltali gefið efnið sem er í e-töflum. Hinir fengu lyfleysur en fengu síðar að reyna efnið.
Að því loknu fóru sjúklingarnir í meðferð hjá sálfræðingum og sýndu tíu af tólf verulegar og varanlegar framfarir tveimur mánuðum eftir að hafa verið gefinn seinni skammturinn af tveimur af efninu. Aðeins fjórðungur þeirra sem fengu lyfleysuna sýndi slíkar framfarir. Engar alvarlegar aukaverkanir eða langtímavandamál komu fram af meðferðinni.