E-tafla gegn áfallastreitu

Alsælutöflur.
Alsælutöflur. Reuters

Bresk­ir lækn­ar áforma nú að gera fyrstu klín­ísku rann­sókn­ina þar í landi á  e-töfl­um, til þess að kom­ast að því hvort það geti hjálpað fólki sem glím­ir við áfall­a­streitu eft­ir hafa verið mis­notað í æsku, nauðgað eða lent í stríði. 

Sum­ir geðlækn­ar telja að ólög­leg lyf eins og e-töfl­ur, LSD og of­skynj­un­ar­svepp­ir geti nýst til að meðhöndla sjúk­linga sem glíma við al­var­leg­ar geðræn­ar trufl­an­ir og geta ekki horfst í augu við eig­in vanda­mál. Hins veg­ar segja lækn­ar að það sé nærri því ómögu­legt að rann­saka áhrif lyfj­anna vegna ótta al­menn­ings og reiði sem götu­blöð hafa vakið upp í garð ólög­legra lyfja.

„Ég er þeirr­ar ákveðnu skoðunar að sjúk­ling­um og vís­inda­mönn­um hafi verið neitað um mörg lyf sem gætu hjálpað við meðferð vegna lyfja­laga. Lyf­in voru gerð ólög­leg í til­gangs­lausri til­raun til þess að fá ungt fólk til að hætta að neyta þeirra en fólk hef­ur ekki hugsað út í nei­kvæðar af­leiðing­ar þess [að banna þau],“ seg­ir pró­fess­or Dav­id Nutt, geðlyfja­fræðing­ur.

Nutt er í hópi breskra vís­inda­manna sem von­ast til þess að geta líkt eft­ir rann­sókn sem gerð var í Banda­ríkj­un­um á sjúk­ling­um sem þjást af áfall­a­streitu. Sú rann­sókn var smá í sniðum en sýndi mik­inn ár­ang­ur. Breska blaðið The Guar­di­an seg­ir frá þessu.

Í rann­sókn­inni í Banda­ríkj­un­um var tólf sjúk­ling­um af tutt­ugu sem höfðu verið í meðferð og á lyfj­um í 19 ár að meðaltali gefið efnið sem er í e-töfl­um. Hinir fengu lyf­leys­ur en fengu síðar að reyna efnið.

Að því loknu fóru sjúk­ling­arn­ir í meðferð hjá sál­fræðing­um og sýndu tíu af tólf veru­leg­ar og var­an­leg­ar fram­far­ir tveim­ur mánuðum eft­ir að hafa verið gef­inn seinni skammt­ur­inn af tveim­ur af efn­inu. Aðeins fjórðung­ur þeirra sem fengu lyf­leys­una sýndi slík­ar fram­far­ir. Eng­ar al­var­leg­ar auka­verk­an­ir eða lang­tíma­vanda­mál komu fram af meðferðinni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert