Hundruð ljósa á himni

Stjörnuhrap séð úr geimnum.
Stjörnuhrap séð úr geimnum. Reuters

„Þetta er loftsteinadrífa eða mörg stjörnuhröp á stuttum tíma,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, en búist er við að nokkur hundruð stjörnuhröp kynnu að sjást á himni þegar jörðin fer í gegnum smábrot úr halastjörnunni Giacobini-Zinner.

„Þegar hún hringsólar í kringum sólina þá skilur hún eftir sig slóð, bara eins og allar halastjörnur gera, og það kemur fyrir að jörðin fer inn í þessa slóð. Þegar það gerist þá fáum við svona loftsteinadrífu,“ segir Sævar Helgi.

Að sögn er jörðin að fara í gegnum þykkari hluta af slóð halastjörnunnar en venjulegt er og því má búast við miklu sjónarspili í kvöld, sjáist til himins sökum veðurs.

„Ef það sést einhvers staðar til himins í kvöld þá getur fólk átt von á því að sjá jafnvel, ef bjartsýnustu spár rætast, nokkur hundruð stjörnuhröp á klukkutíma.“

Rofi til á himni er fólki bent á að horfa í norður, í átt að Karlsvagninum, en reikna má með mesta sjónarspilinu í kringum klukkan 22 í kvöld og hvetur Sævar Helgi fólk til að byrja að fylgjast með eftir klukkan 20.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert