Í kjölfar svokallaðrar Bailey-skýrslu sem Samband kristilegra mæðra í Bretlandi birti fyrr á árinu vinna Bretar nú að ýmsum aðgerðum sem miða að því að vernda börn og ungmenni gegn klámsíðum og öðru óæskilegu efni. Hér á landi hefur meðal annars SAFT unnið að bættu netöryggi barna og ungmenna.
Netvörn liður í aðgerðum gegn klámvæðingu
Fjórir stórir netþjónustuaðilar í Bretlandi, BT, SKY, TalkTalk og Virgin, bjóða foreldrum upp á þann möguleika við áskrift að loka á klámsíður. Vörnin verður ekki aðeins í boði fyrir tölvunotendur heldur einnig notendur snjallsíma. Hingað til hafa breskir foreldrar sjálfir þurft að stilla sínar netvarnir en nú virkjast þær strax með þessari áskriftarleið. Greint er frá þessu á vef BBC.
Nýi áskriftarmöguleikinn er settur fram í kjölfar umræðna um hvernig hægt sé að vinna gegn áhrifum klámvæðingar á börn og ungmenni en greint hefur verið frá því að forsætisráðherra Breta, David Cameron, muni funda með fulltrúum í fjarskiptaiðnaði um efnið.
Cameron mun jafnframt formlega opna síðu þar sem foreldrar geta sent inn kvartanir vegna óviðeigandi innihalds í fjölmiðlum og á vefsíðum, samsvarandi ábendingarhnappinum á vef Barnaheilla og styðja bann við því að birtar séu djarfar auglýsingar á auglýsingaskiltum nálægt skólum. Cameron hefur einnig lýst því yfir að hann fagni öllum tillögum sem miða að því að auðvelda foreldrum að vernda börn gegn óæskilegu efni, sama hvaða miðlar eiga í hlut. Þá er hann sagður styðja bann við því að börn séu notuð til að auglýsa vörur fyrir börn.
Gagnrýnendur alls þessa segja um ritskoðun að ræða og foreldrar eigi að taka ábyrgð á vafri barna sinna um vefinn og fjölmiðlanotkun.
Netvörn mikilvæg til að sía burt óæskilegt efni
Guðberg K. Jónsson, talsmaður SAFT sem vinnur að netöryggi barna segir aðgerðirnar í Bretlandi ekki eingöngu snúa að því að loka fyrir óæskilegt efni frá gagnabönkum í gegnum tölvur og snjallsíma, heldur sé netkaffihúsum líka skylt að nota slíkar síur. Hér á landi hafi bæði Síminn og Vodafone boðið upp á netvarnir sem foreldrar geti nýtt til að loka fyrir óæskilegt efni en þær séu ekki stilltar þannig að þær útiloki efni frá efnisveitum, heldur verði notandinn að stilla þær sjálfur.
Ábendingar sem berist á ábendingarlínu á vef Barnaheilla fari til ríkislögreglustjóra, sem sendi þær áfram ef hann telji ástæðu til. Efnið sé þá komið í þá gagnagrunna sem netvarnir Símans og Vodafone loki á.
Síminn skoðar netvarnir fyrir snjallsíma
Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir netvara Símans sía óæskilegt efni fyrir börn og unglinga á netinu. Ekki þurfi annað en að fara inn slóð á heimasíðu Símans og merkja við þá síu sem valin er til að virkja hana. Þjónustan sé viðskiptavinum Símans endurgjaldslaus.
Þegar kemur að snjallsímunum segir Margrét að Síminn sé að skoða samskonar þjónustu fyrir þá, enda séu þeir ekkert annað en litlar tölvur og margt óæskilegt efni jafn aðgengilegt þar og í tölvum. Börn og unglingar séu spenntir fyrir þessum tækjum einmitt vegna þess hve netið er aðgengilegt á þeim. Hún segir snjallsíma alltaf að lækka í verði og því margir sem sjái sér fært að eignast einn slíkan. Fyrir foreldra sem vilja sía burt óæskilegt efni í snjallsímanum bendir Margrét til dæmis á lausn frá Android.
Netvörn getur virkað á snjallsíma í gegnum Wifi
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi hjá Vodafone segir fyrirtækið bjóða upp á netvörn sem fylgi ákveðnum þjónustuleiðum. Þar sé boðið upp á lokun á völdum síðum, efni og skráarskiptiforritum. Einnig sé hægt að loka bæði alveg og tímabundið fyrir samskiptaforrit á við MSN-spjallforritið. Fólk geti stillt þetta sjálft í gegnum Mínar síður hjá Vodafone.
Hvað vörn fyrir snjallsíma varðar segir Hrannar slíka vörn ekki í boði sem stendur en hugur Vodafone standi til þess að netvörnin virki líka á snjallsímunum og þannig verði alhliða vörn í boði. Þar sé þó sú undantekning á að þegar snjallsímar nota þráðlaus WiFi-net, sem séu mjög algeng t.d. á heimilium þá virki sú vörn sem hefur verið sett á viðkomandi nettengingu. Hann getur ekki tilgreint nákvæmlega hvenær von sé á heildarvörn sem taki bæði á netnotkun í tölvum og snjallsímum en segir þess vonandi ekki langt að bíða. Slík þjónusta væri líka í takt við samfélagslegar áherslur Vodafone, sem vilji stuðla að ábyrgri netnotkun og hjálpa fólki að forðast óæskilegt efni á netinu.