Neysla vítamína er ekki alltaf af hinu góða, ef marka má rannsókn vísindamanna sem segjast hafa fundið tengingu milli inntöku vítamína og hærri dánartíðni hjá eldri konum.
Í frétt BBC um málið segir að sérfræðingar hafi lengi talið að neysla vítamína og bætiefna sé eingöngu til góðs ef líkamann raunverulega skorti viðkomandi efni. Ofneysla þeirra gæti hinsvegar leitt til skaða, eins og ný rannsókn, sem birtist í tímaritinu Archives of Internal Medicine, greinir frá.
38.000 bandarískar konur á sextugs- og sjötugsaldri var rannsakaðar en þær áttu þær allar sameiginlegt að hafa verið vel nærðar en engu að síður ákváðu margar þeirra að taka inn bætiefni. Fjölvítamín, fólasín, B6 vítamín, magnesíum, sínk, kopar og járn virtust hafa sérstök tengsl við hærri dánartíðni.
Að sögn BBC telja vísindamennirnir að neytendur kaupi bætiefni án nokkurra sönnunar fyrir því að þau muni bæta heilsu þeirra. Þeir taka þó fram að rannsóknin sé ekki fullkomin og óvissuþættirnir ýmsir, t.d. munur á almennri líkamlegri heilsu kvennanna.
Engu að síður segja vísindamennirnir að niðurstöðurnar gefi sterklega til kynna að bætiefna ætti eingöngu að neyta ef sterk læknisfræðileg rök séu fyrir því, því að öðrum kosti geti þau valdið meiri skaða en bata. „Miðað við þau gögn sem við höfum fyrir hendi sjáum við litla réttlætingu fyrir því hversu útbreidd neysla bætiefna er orðin,“ segir dr. Jaakko Mursu, við Háskólann í Austur-Finnlandi.