Afstaða Dana til reykinga gjörbreytt

Reykingar eru á hröðu undanhaldi í Danmörku.
Reykingar eru á hröðu undanhaldi í Danmörku. Reuters

Meirihluti Dana telur að kennarar og aðrir sem vinna með börnum eigi ekki að reykja á vinnutíma og eigi heldur ekki að lykta af tóbaki. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Gallup vann fyrir samtök danskra hjarta-, lungna og krabbameinssjúklinga.

72% aðspurðra lýstu þessari skoðun sinni í könnuninni. Niðurstöðurnar sýna einnig að tóbaksreyk hefur verið úthýst úr dönsku fjölskyldulífi, því á 61% heimila sé aldrei reykt innandyra. Því yngri sem fjölskyldan er því ólíklegra er að þar finnist reykingamaður.

Danir virðast einnig taka afstöðu gegn reykingum nágranna sinna. Tæplega helmingur aðspurðra sagðist heldur vilja búa í fjölbýli þar sem algjört reykingabann gildir innandyra. Aðeins einn af hverjum þremur sagðist vilja búa í fjölbýli þar sem íbúar mættu sjálfir ráða hvort þeir reyktu í eigin íbúðum.

Berlingske Tidende hefur eftir lífstílssérfræðingnum Henrik Byager að rannsóknin sýni að baráttan gegn reykingum sé unnin. Eftir að reykingabannið tók gildi á veitingahúsum og börum hafi marktæk breyting orðið á afstöðu Dana til reykinga. Þeir telji þær ekki lengur vera einkamál heldur koma öllu samfélaginu við.  „Við munum aldrei aftur búa í heimi þar sem fólk situr hlið við hlið á veitingahúsi, í flugvél eða heima hjá sér og reykir hvað  annað í kaf. Sá tími er liðinn," segir Byager.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert