Símafélagið Nova býður nú upp á netsíma, sem virkar svipað og Skype-netsíminn. Er hægt að hringja úr tölvu í aðra tölvu og úr tölvu í heimasíma eða farsíma á Íslandi og í útlöndum.
Fyrirtækið segir, að símtöl, myndsímtöl og spjall milli Nova-netsíma kosti ekkert en ef hringt sé í aðra síma kosti það minna en ef hringt væri úr hefðbundnum heimasíma eða farsíma.
Nova-netsíminn er beintengdur farsímaþjónustu Nova og því þarf ekki að kaupa sérstaka inneign fyrir netsímann líkt og t.d. hjá Skype heldur greiða notendur fyrir þjónustuna með farsímareikningi sínum eða af frelsisinneign.
Allir sem eru í farsímaþjónustu hjá Nova í áskrift eða frelsi geta nú sótt sér 30 daga prufuaðgang að Nova-netsímanum. Eftir 30 daga velur viðskiptavinurinn hvort hann vill halda áfram með Nova-netsímann og greiðir þá 990 króna árgjald, ekkert mánaðargjald er í Nova-netsímanum. Fram til 1. desember býðst 50% afsláttur af árgjaldinu.