Þýskur gervihnöttur, sem hrapaði til jarðar í dag, hlýtur að hafa lent einhvers staðar í Asíu en enginn veit hvar, að sögn bandarísks vísindamanns.
Búist var við því að stærstur hluti ROSAT-gervihnattarins myndi brenna upp í lofthjúpi jarðar en hugsanlega kynnu um 30 brot, samtals 1,87 tonn að þyngd, að lenda á jörðinni.
Jonathan McDowell, vísindamaður hjá Harvard-Smithsonian-stjarnfræðistofnuninni í Cambridge, sagði að gervihnötturinn virtist hafa lent í Suðaustur-Asíu en líklega hefði frést af því ef brotin hefðu lent á þéttbýlum stöðum.
Hann sagði að brakið kynni að hafa lent í Indlandshafi austur af Srí Lanka, eða Andaman-hafi undan strönd Búrma, eða í Kína.