Þýskur stjórnlaus gervihnöttur fór inn í lofthjúp jarðar í nótt og er búist við að þeir hlutar hans, sem ekki brenna upp, lendi innan skamms, líklega í Asíu.
Gervihnötturinn var 2,69 tonn. Búist er við að hann brenni að mestu upp á leiðinni til jarðar en hugsanlega kunni um 30 bútar, sem vega samtals 1,87 tonn, að lenda á jörðinni á um 280 km hraða. Stærsti hlutinn er hitahlíf fyrir sjónauka.
Vísindamenn í þýsku geimferðastofnuninni hafa misst samband við gervitunglið. Sérfræðingar fylgjast nú grannt með því hvar tunglið kemur niður.
Ekki er ljóst hvar hnötturinn var þegar hann fór inn í lofthjúpinn en vísindamenn sögðu líklegast að það hefði gerst yfir Asíu, hugsanlega Kína.
Gervihnettinum var skotið á loft 1990 en hætt var að nota hann árið 1999. Hnötturinn var einkum notaður til að rannsaka svarthol og nifteindastjörnur.