Dreamliner tekur á loft

Dreamliner þota japanska flugfélagsins All Nippon Airways flaug jómfrúrflug sitt …
Dreamliner þota japanska flugfélagsins All Nippon Airways flaug jómfrúrflug sitt í morgun. Reuters

Fyrsta flugferð Dreamliner, sem er ný tegund Boeing þotu, var farin í morgun á vegum japanska flugfélagsins All Nippon Airways, ANA. Förinni var heitið frá Narita flugvelli í Tókíó til Hong Kong.

Tekið var á móti flugvélinni og farþegum hennar með viðhöfn, og var dansandi ljón á meðal þeirra sem fögnuðu komu vélarinnar.

Flugvélin er einkum smíðuð úr léttmálmum, hún er sögð eyða 20% minna eldsneyti en sambærilegar vélar og getur flogið lengri flugleiðir án millilendingar en aðrar flugvélar af sambærilegri stærð.

Flestir um borð voru þar í boði flugfélagsins, en sex sæti á lúxusfarrými voru seld á uppboði og þurftu þeir sem þau hrepptu að grafa nokkuð djúpt í vasana til að greiða fyrir farið, en það var selt á 34.000 Bandaríkjadollara. Það samsvarar tæpum fjórum milljónum íslenskra króna og er þrettánföld sú upphæð sem fargjaldið kostar að öllu jöfnu.

Að auki voru 100 sæti á almennu farrými boðin áhugasömum til kaups.

Um borð voru 252 manns, þeirra á meðal forsvarsmenn ANA og fjöldi blaða- og fréttamanna. Að auki var aðstoðarforstjóri Boeing verksmiðjanna með í för. Til stendur að nota flugvélina til áætlunarflugs á milli Peking og Frankfurt og einnig til að fljúga til Hong Kong.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert