Ef Íslendingar ætla ekki að dragast aftur úr í nútímafjarskiptum þarf ríkið að leita nýrra leiða til þess að fjármagna nýja fjarskiptaáætlun sem stendur til að leggja fyrir Alþingi í næsta mánuði. Í vikunni birti innanríkisráðuneytið drög að þingsályktun um fjarskiptaáætlun til tólf ára í skugga þess að fjármagn er ekki til staðar til þess að hrinda henni í framkvæmd. Leitar ráðuneytið nú fjármögnunarleiða.
Slík fjarskiptaáætlun var fyrst lögð fram fyrir árin 2005 til 2010 og var þar lögð megináhersla á uppbyggingu háhraðanets og að GSM-væða þjóðveg eitt. Í áætluninni sem nú á að leggja fyrir og gilda á til 2022 eru sett frekari markmið um háhraðanet. Þannig er gert ráð fyrir að helmingur heimila og vinnustaða eigi kost á 100 Mb háhraðaneti árið 2014 og að það hlutfall verði komið upp í 99% árið 2022.
Að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, sérfræðings á skrifstofu innviða hjá innanríkisráðuneytinu, standa Íslendingar mjög framarlega í þessum efnum á heimsvísu en þeir verði að passa sig að dragast ekki aftur úr.
„Við höfum staðið okkur mjög vel sem helgast af því að það voru til fjármunir. Í áætluninni 2005-2010 var tveir og hálfur milljarður af söluvirði Símans settur í hana og það var farið í gríðarlega uppbyggingu á háhraðaneti á svæðum þar sem fyrirtækin sáu sér ekki hag í að fara,“ segir Steinunn.
Þessum fjármunum er hins vegar ekki til að dreifa í dag og því þarf að leita nýrra leiða til að standa undir þeim markmiðum sem ríkið hefur sett sér í fjarskiptamálum.
„Það er gríðarlega margt sem er framsýnt í þessari áætlun en við erum bundin eins og allir aðrir af því efnahagsumhverfi sem er þessa dagana. Aðalatriðið er að halda í við þróunina þó fjármunir séu ekki lengur til staðar,“ segir hún.
Treysta þurfi á samvinnu við fjarskiptafyrirtækin, skoða alls kyns laga- og reglugerðarbreytingar og vera opin fyrir nýjum fjármögnunarleiðum til að koma áætluninni í framkvæmd.
Á meðal þeirra fjármögnunarmöguleika sem verið er að skoða er frekari útfærsla á tíðnigjaldi sem innheimt hefur verið af fjarskiptafyrirtækjum fyrir að nota tíðnir fyrir net og farsíma.
Fjarskiptaáætlunin nær einnig til póstmála og er meðal annars fjallað um opnun póstmarkaðarins sem yfirvofandi er vegna tilskipunar Evrópusambandsins um afnám einkaréttar á póstþjónustu. Ísland var eitt þeirra ríkja sem fengu leyfi til að fresta því að hún tæki gildi en það rennur út um áramótin 2012 til 2013.
Í drögunum að fjarskiptaáætlun kemur fram að þá þurfi að tryggja að neytendur á landsvísu hafi aðgang að póstþjónustu.
Geti markaðsöfl ekki tryggt þeim hann mega ríki útnefna alþjónustuveitanda sem stjórnvöld mega styrkja með ríkisstyrkjum, jöfnunarsjóði eða mögulega að undangengnu útboði til þess að dreifa kostnaði við að þjóna afskekktum byggðum.
Eftir að póstmarkaðurinn verður opnaður skiptir öllu máli hvernig ríkið hyggst útfæra alþjónustu um landið að sögn Ingimundar Sigurpálssonar, forstjóra Íslandspósts. Fyrirtækið hefur einkarétt á dreifingu almennra bréfa undir 50 grömmum gegn því að fyrirtækið annist dreifingu til allra landsmanna.
Ingimundur segir að síðustu misseri hafi einkarétturinn verið rekinn með tapi og markaðurinn fari minnkandi vegna tæknibreytinga og efnahagsástandsins.
Fyrirtækið sé undir það búið að halda þjónustunni áfram enda með öflugt dreifikerfi en spurningin sé helst hver greiði kostnaðinn þar sem hún kosti umtalsverða fjármuni.