Verkjalyf draga þrefalt fleiri til dauða

Lyfseðilsskyld verkjalyf draga fleiri Bandaríkjamenn til dauða heldur en kókaín …
Lyfseðilsskyld verkjalyf draga fleiri Bandaríkjamenn til dauða heldur en kókaín og heróín gerir samanlagt að sögn bandarískra heilbrigðisyfirvalda. Reuters

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld segja að fjöldi þeirra sem hafi tekið inn banvænan skammt af lyfseðilsskyldum verkjalyfjum hafi þrefaldast á áratug. Slík lyf draga fleiri til dauða í Bandaríkjunum heldur en þeir sem látast af völdum heróíns og kókaíns samanlagt.

Heilbrigðisyfirvöld segja að markaðurinn sé yfirfullur af verkjalyfjum. Magnið sé nóg til að hver og einn Bandaríkjamaður geti fengið Vicodin töflu á fjögurra tíma fresti í heilan mánuð. 

Fram kemur í skýrslu bandarísku forvarnastofnunarinnar Centers for Disease Control and Prevention að ástandið hafi versnað til muna á sl. 10 árum. Í skýrslunni segir að um faraldur sé að ræða, þ.e. fólk sem taki of stóran skammt af lyfseðilsskyldum lyfjum.

Bent er á að frá árinu 1999 hafi sala á svokölluðum ópíóíð verkjalyfjum, t.d. oxycodone, methadone og hydrocodone, sem er betur þekkt sem Vicodin, fjórfaldast til apóteka, sjúkrahúsa og lækna.

Þá segir að 12 milljónir Bandaríkjanna, 12 ára og eldri, hafi tekið inn verkjalyf í fyrra án þess að hafa þurft á þeim að halda. Þetta gerir 5% landsmanna.

Í skýrslunni segir að árið 1999 hafi 4.000 látist eftir að hafa tekið banvænan skammt af ópíóíð verkjalyfjum. Árið 2008 létust 14.800 einstaklingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert