Breytir brúnum augum í blá

Þróuð hefur verið aðferð til að gera brún augu blá.
Þróuð hefur verið aðferð til að gera brún augu blá.

Banda­ríski líf­fræðing­ur­inn Gregg Homer seg­ist hafa þróað aðferð til að breyta brún­um aug­um í blá. Með 20 sek­úndna leisermeðferð sé hægt að fjar­lægja brúna lit­inn í aug­un­um þannig að þau verði smám sam­an blá.

Hann leit­ar nú að fjár­fest­um til að fjár­magna rann­sókn­ir á aðferðinni. Augn­lækn­ar eru hins­veg­ar ekki jafn­hrifn­ir af þess­ari upp­finn­ingu Homers og segja að hún geti valdið sjóntrufl­un­um. Áætlað er að það muni taka a.m.k. hálft annað ár að ljúka öll­um ör­yggis­próf­un­um.

Í aðferðinni felst að tölvu­stýrður skanni tek­ur mynd af lit­himn­unni og reikn­ar út hvaða svæði skal geisla. Að því loknu er geisl­an­um beint á svæðin, hvert á eft­ir öðru, og fer geisl­inn nokkr­ar um­ferðir. Meðferðin tek­ur ekki nema um 20 sek­únd­ur.

„Leiser­inn hreyf­ir við litn­um á yf­ir­borði lit­himn­unn­ar,“ sagði Homer í viðtali við BBC. „Við not­um tvær tíðnir sem dökka litar­efnið í aug­anu dreg­ur í sig, og það dreg­ur það allt í sig þannig að það er eng­in hætta á skemmd­um í öðrum hlut­um aug­ans. Það hit­ar upp litar­nefnið og breyt­ir upp­bygg­ingu litar­frumn­anna. Lík­am­inn skynj­ar að þarna sé ónýt­ur vef­ur og mynd­ar ákveðið prótein. Þá fara aðrar eind­ir af stað sem eru eins og litl­ir pac-man og gleypa ónýta vef­inn.“

Viku eft­ir meðferðina, meðan breyt­ing­in er að eiga sér stað, er augn­lit­ur­inn dekkri en áður en einni til þrem­ur vik­um eft­ir það byrj­ar blái lit­ur­inn að sjást. Þar sem litar­efnið mel­an­ín mynd­ast ekki að nýju er ekki hægt að fá brúna lit­inn aft­ur.

Augn­lækn­ar hafa lýst yfir áhyggj­um sín­um af þess­ari aðferð. „Litar­efnið er ekki þarna að ástæðulausu. Ef það er tekið burt er m.a. hætta á fólk sjái tvö­falt,“ seg­ir Larry Benjam­in, augnsk­urðlækn­ir í Bretlandi. Erfiðara væri fyr­ir augað að stjórna birt­unni sem það hleypti inn. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka