Umhverfisráðherra Kanada, Peter Kent, sagði í dag að ísbjörninn væri nú á lista yfir dýrategundir sem sérstakar áhyggjur þyrfti að hafa af og sagði að ný áætlun um að vernda tegundina yrði sett í gang á næstu þremur árum.
„Í Kanada eru heimkynni um tveggja þriðju hluta ísbjarnastofnsins og á okkur liggur sérstök ábyrgð þegar kemur að því að vernda ísbjörninn,“ sagði ráðherra meðal annars.
Hann sagði áætlunina þurfa að miða að því að minnka þá ógn sem björnunum stendur af mannfólkinu en tók þó fram að þjóðflokkum eins og Inúítum yrði ekki bannað að veiða birnina sér til matar.
Samkvæmt skýrslu kanadískra stjórnvalda eru fjórir af þrettán undirstofnum í mikilli hættu vegna hnattrænnar hlýnunar og ofveiða, en þeir telja um 4.330 dýr af 15.500. Þykir líklegt að stofnanir fjórir muni minnka um 30% næstu 36 árin en gert er ráð fyrir að stærð hinna stofnanna haldist stöðug.
Um 534 ísbirnir eru veiddir árlega í Kanada samkvæmt opinberum tölum en meirihluti íbúa nyrsta hluta landsins voru mjög á móti því á árunum 2008-2010 að tegundin væri sett á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.