Landselur réttir ekki úr kútnum

Landselur var talinn við strendur landsins í sumar. Talningin er …
Landselur var talinn við strendur landsins í sumar. Talningin er sú viðamesta sem gerð hefur verið til þessa hér á landi. Rax/Ragnar Axelsson

Talning bendir til þess að landselsstofninn hafi ekki rétt úr kútnum frá því árið 2003, þrátt fyrir síminnkandi veiði á landsel. Margt getur skýrt það, m.a. er talið líklegt að slysaveiðar á sel í fiskinet hafi neikvæð áhrif á stofninn, að sögn Veiðimálastofnunar.

Talning var gerð á landsel síðasta sumar í tengslum við stofnstærðarmat. Ásamt Veiðimálastofnun tóku Selasetur Íslands, Rannsjá, BioPol og Hafrannsóknastofnunin þátt í verkefninu. Verkefnið er styrkt af AVS.

„Þetta er tíunda heildartalning landsela úr flugvélum sem farið hefur fram hérlendis, en slík talning voru fyrst gerð árið 1980. Talning hefur þó ekki verið samfelld þar sem sú síðasta var framkvæmd árið 2006. 

Í ár var flogið yfir strandlengju allra landsfjórðunga allt að þrisvar sinnum og var fjöldi sjáanlegra landsela talinn í öllum látrum, sem er framför, þar sem talning fyrri ára miðaði einungis að því að fljúga einu sinni yfir ströndina hvert talningarár. Talningin 2011 er því sú viðamesta sem ráðist hefur verið í til þessa.

Að meðaltali sáust um 4512 landselir nú, en sú tala er mitt á milli talningarniðurstöðu áranna 2003 og 2006,“ segir m.a. í frétt Veiðimálastofnunar.

Selasetur Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert