Bjuggu til ljós úr engu

Í tilrauninni skoppa sýndarljóseindir af „spegli
Í tilrauninni skoppa sýndarljóseindir af „spegli" sem titrar á hraða sem nálgast hraða ljóssins.

Vísindamönnum í Chalmers-háskóla í Gautaborg í Svíþjóð hefur tekist að búa til ljós úr tómi. Vísindamönnunum tókst að fanga nokkrar þeirra ljóseinda, sem stöðugt birtast og hverfa í tómarúminu.

Fram kemur á vef háskólans að tilraunin byggist á einu af mikilvægustu lögmálum skammtafræði, að lofttóm sé ekki algert tóm. Í raun sé tómarúmið fullt af allskonar eindum, sem stöðugt verða til og hverfa. Þær birtast, eru til í örskotsstund og hverfa síðan aftur. Vegna þess að þær eru svona hvikular séu þær venjulega kallaðar sýndareindir.

Nú hafi Christopher Wilson, vísindamanni hjá Chalmers, og samstarfsmönnum hans tekist að fá ljóseindir til að brjótast út úr sýndarveruleikanum og verða raunverulegar ljóseindir, þ.e. að ljósi sem hægt er að mæla.   

Eðlisfræðingar hafi spáð því um 1970 að þetta myndi gerast ef sýndarljóseindir fengju að skoppa af spegli, sem ferðaðist á hraða sem nálgaðist hraða ljóssins.  Nú hafi tekist að fylgjast með þessu fyrirbæri í fyrsta skipti.

Háskólinn segir að þessi tilraun dýpki skilning á grunnhugtökum eðlisfræðinnar, svo sem tómarúmsflökti þegar sýndareindir birtast og hverfa stöðugt í tómarúmi. Talið sé að þetta tómarúmsflökt kunni að tengjast svonefndri „dökkri orku" sem veldur því að alheimurinn þenst sífellt hraðar út. Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði voru veitt fyrir rannsóknir á útþenslu alheimsins.

Vefur Chalmers-háskóla

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert