Von á stærri iPhone?

IPhone fær stærri skjá ef marka má heimildarmann iLounge.
IPhone fær stærri skjá ef marka má heimildarmann iLounge.

Orðrómur er um, að bandaríski tölvuframleiðandinn Apple muni á næsta ári breyta hönnun allra helstu tækjanna, sem þar eru framleidd. Þannig verði skjárinn á iPhone símanum stækkaður og skjárinn á iPad verði bættur.

Á á vefnum iLounge hefur blaðamaður eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að mestu breytingar á iPhone 5 frá nýjasta símanum, iPhone 4S, séu þær að skjárinn verði stærri eða 4 tommur. Það hafi í för með sér að síminn verði 8 millimetrum lengri.

Að sögn danska blaðsins Berlingske vildi Steve Jobs, nýlátinn stofnandi Apple, ekki að skjárinn á símunum væri stærri en 3,5 tommur því þá gæti notandinn notað aðra höndina til að stýra tækinu. Önnur símafyrirtæki hafa hins vegar framleitt stærri síma og notendur hafa verið fljótir að komast upp á lagið með að nota báðar hendur. 

Þá er gert ráð fyrir að í símanum verði svonefnd LTE-flaga sem þýðir að hann muni styðja 4G farsímanet. 

Heimildarmaður iLounge segir einnig, að búast megi við að ný útgáfa af iPad spjaldtölvu verði 0,7 millimetrum þykkari en sú sem nú er seld. Er ástæðan fyrir því að skjárinn verði mun betri, með fjórum sinnum meiri upplausn. Búist er við að þessi tölva líti dagsins ljós í byrjun ársins.

Loks segir iLounge, að árið 2012 verði árið þegar MacBook Pro fær nýtt útlit. „Hugsið þynnra," segir vefurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert