Ástralskir foreldrar sem ekki láta bólusetja börn sín að fullu verða sviptir skattaívilnunum fyrir fjölskyldur samkvæmt áætlun sem þarlend stjórnvöld hafa kynnt. Að sögn stjórnvalda hafa ellefu prósent fimm ára gamalla barna í landinu ekki verið bólusett.
Samkvæmt breytingunum gætu foreldrar, sem neita að láta bólusetja börn sín, tapað jafnvirði allt að 246 þúsundum króna fyrir hvert barn. Verða þeir að láta bólusetja börnin að fullu ef þeir ætla að fá greiddar barnabætur. Bæturnar eru greiddar út í lok árs og nema um 85 þúsund krónum á ári. Ástralska ABC-fréttastöðin segir frá þessu.
Bólusetningar eru einnig skilyrði þess að foreldrar barna fái greiddar ýmsar aðrar bætur vegna barna sinna. Telja stjórnvöld að breytingarnar spari ríkissjóði jafnvirði tæpra 24,5 milljarða króna á næstu fjórum árum.
„Við vitum að bólusetningar eru lykilatriði í heilsu barna fyrir lífstíð og þess vegna viljum við tryggja að þau séu bólusett á réttum tíma,“ segir Nicola Roxon, heilbrigðisráðherra Ástralíu.