Háþróað vélmenni sent til Mars

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, Nasa, sendir í dag út í geiminn öflugasta og þróaðasta vélmenni sem stofnunin hefur smíðað til að rannsaka Mars og leita að vísbendingum um líf sem kann að hafa þrifist á rauðu plánetunni.

Um er að ræða kjarnorkuknúið farartæki á sex hjólum, sem skotið verðu upp í geiminn með Atlas V-eldflaug frá geimstöðinni Cape Canaveral í Flórída klukkan 10.02 að íslenskum tíma. „Þetta er draumur hvers vísindamanns sem hefur sérhæft sig í Mars,“ hefur Afp eftir Ashwin Vasavada, vísindamanninum sem stýrir verkefninu. „Þetta er öflugasta rannsóknartæki sem við höfum nokkurn tíma set út...við erum verulega spennt.“

Vélmennið, sem nefnist Forvitni (e. Curiosity) kostaði 2,5 milljarða Bandaríkjadala. Markmið þess er að afla ítarlegra gagna fyrir vísindamenn á jörðu niðri um steintegundir á yfirborði Mars, sem og vísbendinga um hvort hugsanlegt sé að líf hafi einhvern tíma þrifist á þessum næsta nágranna Jarðar.

Tækið er m.a. búið bor, vélstýrðum armi og 10 mismunandi öðrum tækjum, þ.á m. tveimur litmyndavélum, leysigeisla til að kljúfa áhugaverða steina og verkfærum til að greina innihaldsefni þeirra.  Fari allt að óskum ætti Forvitni að lenda eftir um það bil 9 mánuði, hinn 5. ágúst 2012 og senda upplýsingar til vísindamanna á jörðu niðri án þess þó að færa steintegundirnar nokkurn tíma hingað með sér.

Nasa hóf rannsóknir sínar á Mars árið 1976 þegar geimferjan Víkingur lenti þar í fyrsta sinn. Litið er á ferð Forvitni sem næsta skref áfram áður en hugsanlega verði farin mönnuð geimferð til plánetunnar, eða annars af tveimur tunglum hennar, á 4. áratug þessarar aldar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert