Skógar eyðast nú hraðar en áður, samkvæmt rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna. Á hverju ári eyðast nú um 6,4 milljónir hektara af skóglendi. Hafa tíu hektarar af skógi eyðst á mínútu hverri undanfarin fimmtán ár. Mesta eyðingin á sér stað í regnskógum heimsins.
Notaði matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ gervihnetti til þess að kortleggja skóga í fyrsta skipti. Varð niðurstaðan sú að í heildina hefði 4,1 milljón hektara af skógi tapast á ári hverju frá 1990 til 2000 og 6,4 milljónir frá 2000 til 2005. Þekja skógar nú 30,3 prósent af landsvæðum jarðarinnar.
„Eyðing skóga sviptir milljónir manns gæðum skóganna og þjónustu sem er lykilatriði í fæðuöryggi, efnahagslegri velferð og umhverfisvernd,“ segir Eduardo Rojas-Briales, aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunarinnar.
Tölurnar sýna að 10 hektarar af skóglendi hafa eyðst á mínútu hverri á þessu 15 ára tímabili, aðallega vegna þess að regnskógar Suður-Ameríku og Afríku er höggnir til þess að rýma til fyrir ræktarlandi. Eyðingin er þó um 32 prósentum minni en áður var talið á tímabilinu en alls hafa 72,9 milljón hektarar tapast frá 1990 til 2005. Þrátt fyrir að skógum sé ennþá eytt í Asíu vegur fjöldi trjáa sem gróðursettur er upp á móti því og hefur skóglendi því vaxið þar.
Rússland, Brasilía, Kanada, Bandaríkin, Kína, Ástralíu, Kongó, Indónesía, Perú og Indland eru þau lönd þar sem mestu skógar heimsins eru. Um helming skóglendis er að finna í fimm fyrstu löndunum í upptalningunni.