Bandarískir vísindamenn hafa fundið tvö risavaxin svarthol sem hvort um sig er tíu milljarða sinnum stærra en sólin. Svartholin eru í stjörnuþokum í 300 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Chung-Pei Ma, stjarnfræðingur hjá Berkeley háskóla í Kalíforníu, sagði á blaðamannafundi að þetta væru stærstu svarthol, sem vitað væri um. Í grein, sem birtist í tímaritinu Nature í dag, segja vísindamennirnir, að hugsanlega séu svartholin leifar af tifstjörnum, sem hafi fyllt alheiminn ekki löngu eftir að hann varð til. Massa svartholanna svipi til massa ungra tifstjarna.
Svarthol verða, að sögn Vísindavefjarins, til þegar kjarnar stjarna falla saman undan eigin massa. Kjarninn fellur saman þangað til hann er orðinn geysilega þéttur og allur massinn er saman kominn á örlitlu svæði. Umhverfis það er þyngdarsviðið svo sterkt að ekkert sleppur í burtu, ekki einu sinni ljós.