Systurpláneta jarðar fundin

Tölvumynd af plánetunni Kepler 22b.
Tölvumynd af plánetunni Kepler 22b.

Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, tilkynnti í dag, að fundist hefði pláneta í öðru sólkerfi þar sem skilyrði væru talin vera svipuð og á jörðinni og því gæti líf hugsanlega þrifist þar.

Þetta er í fyrsta skipti, sem NASA fær staðfestingu gegnum Kepler-geimsjónaukann  að slík pláneta sé til utan okkar sólkerfis. En fyrr á þessu ári staðfestu franskir stjörnufræðingar að þeir hefðu fundið plánetu í öðru sólkerfi, sem uppfylli lykilskilyrði fyrir að þar gæti þrifist líf.

Skilyrðin eru þau að plánetur séu í réttri fjarlægð frá stjörnunum, sem þær hringsóla um, þannig að þar gæti verið að finna vatn og að hitastigið og andrúmsloftið væri heppilegt.

Þótt stjarnfræðingar hafi staðfest að skilyrðin á  Kepler 22b séu þannig, að þar gæti líf þróast vita þeir ekki hvort þar sé í raun líf að finna. 

Kepler 22b er 2,4 sinnum stærri en jörðin og er í 600 ljósára fjarlægð. Plánetan er 290 daga að fara umhverfis stjörnu, sem líkist sólinni. Vísindamenn vita hins vegar ekki úr hverju plánetan er gerð. 

NASA segir að Kepler-sjónaukinn hafi fundið um 1.000 aðrar plánetur þar sem hugsanlega séu skilyrði fyrir lífi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert