Rannsóknir benda til þess að tengsl séu á milli fellibylja við Haítí og Taívan og jarðskjálfta. Benda niðurstöðurnar til þess að miklar rigningar og aurskriður geti komið af stað jarðhræringum. Bandarískir vísindamenn við Miami-háskóla greina frá þessu.
„Mjög miklar rigningar eru það sem kemur þessu af stað. Rigningin kemur af stað þúsundum aurskriða og miklu landrofi sem fjarlægir jarðveg af yfirborði jarðar sem afléttir álagi og kemur af stað hreyfingu við flekaskilin,“ segir Shimon Wdowinski, vísindamaður við háskólann.
Wdowinski og vísindamenn við Alþjóðaháskólann í Flórída hafa greint gögn frá stórum jarðskjálftum við Taívan og Haítí sem eru sex stig eða meira frá síðustu 50 árum. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að meiriháttar jarðskjálftar koma gjarnan innan fjögurra ára eftir mikla vætu á fellibyljatímabilum.
Í sumum tilfellum hafa jarðskjálftarnir orðið fyrr. Árið 2009 fylgdi jarðskjálfti upp á 6,2 stig Morakot-fellibylnum í Taívan og annar upp á 6,4 stig árið 2010. Rannsakendurnir skoðuðu einnig risaskjálftann sem reið yfir Haítí árið 2010 upp á sjö stig og komust að því að einu og hálfu ári áður höfðu tveir fellibylir og tveir hitabeltisstormar gengið yfir eyjuna á innan við 25 daga tímabili.
Kenning vísindamannanna er sú að rigningarnar og skriðurnar færi það mikla þyngd úr stað yfir flekaskilum að það komi af stað jarðskjálftum. Gengur hún hins vegar aðeins upp þar sem flekaskilin eru undir hálendi og þar sem vatn getur fært jarðveg miklar vegalengdir úr stað.