Sú langlífa mýta að stærðfræði liggi betur fyrir strákum en stelpum heldur ekki vatni. Ný umfangsmikil samanburðarrannsókn, sem vísindamenn við Wisconsin háskóla gerðu í 86 löndum, sýnir fram á að það sé fyrst og fremst menningarbundið og bæði kyn standi sig betur í stærðfræði þar sem kynjajafnrétti er meira.
Rannsóknin, sem framkvæmd var af Janet Mertz, prófessor í veirufræði, og Jonathan Kane, prófessor í stærðfræði við Wisconsin háskóla var birt í gær í tímaritinu American Mathematical Society. Í henni var tilgátan um yfirburði karla á sviði stærðfræði skoðuð út frá gögnum frá 86 löndum
Niðurstöðurnar sýndu m.a. að í mörgum löndum er enginn marktækur munur á frammistöðu stráka og stelpna í stærðfræði. Í sumum löndum, m.a. Bandaríkjunum, er kynjamunur, en hann hefur minnkað verulega undanfarna áratugi.
Vísindamennirnir skoðuðu sem dæmi ungt fólk sem hefur skarað fram úr hvað varðar stærðfræðihæfileika og skorað yfir 700 stig á bandarísku SAT prófunum svo kölluðu fyrir 13 ára aldur. Á 8. áratugnum fékk aðeins 1 stelpa á móti hverjum 13 strákum svo háa einkunn í stærðfræði en í dag er hlutfallið ein á móti þremur, og fer bilið stöðugt minnkandi. Svipuð þróun hefur orðið á hæsta stigi stærðfræðimenntunar, því á 7. áratugnum voru konur aðeins 5% þeirra sem luku doktorsprófi í stærðfræði í Bandaríkjunum, en í dag eru þær 30%.
Í rannsókninni sýnda Mertz og Kane líka fram á að almennt virðist þumalputtareglan vera sú að munurinn milli kynjanna í stærðfræði sé minni eftir því sem jafnrétti er meira, og ekki nóg með það, heldur standa bæði kyn sig betur í stærðfræði þar sem jafnræði kynjanna er hvað mest í samfélaginu.
Aðrir vegamiklir þættir sem hafa áhrif á stærðfræðigetu fjöldi nemenda á hvern kennara og fjöldi nemenda undir fátæktarmörkum.