Vísindamenn hafa nú komist að því að skrítinn beinvöxtur aftan í fótum fíla er í raun og veru sjötta táin, sem virðist hafa þann tilgang að styðja við hina miklu þyngd dýrsins. Hefur þar með verið leyst úr ráðgátu sem menn hafa velt vöngum yfir í meira en 300 ár.
Steingervingar sýna að táin þróaðist fyrir um 40 milljón árum, þegar fílar þess tíma urðu stærri og eyddu meiri tíma á landi, en menn hafa lengi deilt um tilgang hennar, eða tilgangsleysi.
„Þetta er skemmtilegur leyndardómur, sem rekja má aftur til ársins 1706, þegar fíll var í fyrsta skipti krufinn, af skoskum skurðlækni,“ segir prófessorinn John Hutchinson, einn höfunda ritgerðar um málið, sem birtist í tímaritinu Science.
„Allir sem hafa rannsakað fílsfætur hafa velt þessu fyrir sér. Þeir hafa hugsað: „Hmm.. þetta er skrýtið,“ en svo bara haldið áfram,“ sagði hann einnig.
Höfundar skýrslunnar segja ljóst að um sé að ræða bein, en ekki brjósk eins og fyrst var haldið, en vöxtur þess og staðsetning séu óvenjuleg. Nánari rannsóknir hafi þó sýnt fram á að það sé ekki ólíkt beini sem finnst í framfótum risapöndunnar.
Það bein hefur verið kallað „þumall“ pöndunnar, eða „sjötti fingurinn,“ og hjálpar henni við að grípa utan um bambus, sem hún leggur sér til munns. Moldvörpur eru einnig með sjötta puttann, sem gerir þeim auðveldara fyrir að grafa sig ofan í jörðina.
Hutchinson segir mögulegt að vöxturinn hafi upphaflega aðeins verið lítill nabbi. „Mörg dýr hafa vöxt af þessu tagi, litla brjósknabba sem stundum verða að beinum og þjóna mismunandi tilgangi í hverri tegund,“ segir hann.
Hjá fílum þjóni beinið einföldum tilgangi: það hjálpi þeim að bera uppi hina gríðarlegu líkamsþyngd sína.