Landsmenn nota vafrann Internet Explorer og stýrikerfið Windows í sífellt minna mæli, samkvæmt vefmælingum síðustu ár hjá mbl.is.
Ef litið er til vafra – þess hugbúnaðar sem notaður er til að vafra um netið — kemur í ljós að vafri Microsoft, Internet Explorer, hefur átt dvínandi fylgi að fagna en hlutdeild hans hefur minnkað um 30% á þremur árum: farið úr 61% hlutdeild niður í tæplega 43% hlutdeild.
Á sama tíma hefur hlutdeild vafrans Firefox minnkað um 8% en fjórðungur notenda mbl.is notast við þann vafra.
Hástökkvarar áranna 2009-2011 eru vafrar Google og Apple. Google Chrome, sem var kynntur vefnotendum árið 2008 hefur þegar náð um 18% hlutdeild, en á sama tímabili jókst hlutdeild Safari, vafra Apple, um 66% og er rúmlega 13%.
Hvað stýrikerfi varðar hefur markaðshlutdeild Windows dregist saman um 9% á síðastliðnum þremur árum, þótt enn hafi það ráðandi stöðu með um 80% notenda. Helsti keppinautur þess, Mac OS, hefur hins vegar aukið hlutdeild sína úr 11% í tæp 15% á sama tímabili sem jafngildir um 37% aukningu.
Samkvæmt könnunum Capacent heimsækja tæplega 90% landsmanna fréttavefinn mbl.is í mánuði hverjum svo gera má ráð fyrir að mælingarnar endurspegli ágætlega notkunina á stýrikerfum og vöfrum hér á landi.