Vísindamenn tilkynntu í dag að þeir hefðu þróað örmjóan vír sem er tíu þúsund sinnum þynnri en mannshár en hefur engu að síður sömu rafleiðni og kopar. Þetta er talið risavaxið skref í áttina að því að smíða enn minni og öflugri tölvur í framtíðinni.
Uppfinningunni er lýst í grein í vísindatímaritinu Science en vírinn er aðeins ein frumeind á hæð og fjórar að breidd. Tæknin er einnig talin geta nýst í svokölluðum skammtatölvum en þær gætu unnið úr gögnum hraðar en stafrænar tölvur nútímans sem styðjast við tvíendakerfi.
Vísindamönnunum tókst að búa til þessa örvíra úr sílikoni með tækni sem byggist á því að setja hlekki af fosfórfrumeindum inn í sílikonkristal.
„Þessi tækni gerir okkur ekki aðeins kleift að sjá einstakar frumeindir heldur einnig að hreyfa þær og koma fyrir,“ segir Bent Weber, aðalhöfundur rannsóknarinnar. Örvírarnir sem vísindamennirnir bjuggu til eru á bilinu 1,5 til 11 nanómetra þykkir, en einn nanómetri jafngildir einum milljarðasta hluta af metra.