Svíar hafa, fyrstir þjóða, formlega viðurkennt trúarsamfélag sem byggist á þeirri sannfæringu að allir eigi rétt á að skiptast á tölvuskrám. Eftir að hafa verið hafnað tvisvar var umsókn „Det Missionerande Kopimistsamfundet“ eins og söfnuðurinn kallar sig, samþykkt í þriðja sinnið. DMK var stofnaður árið 2010 og segir að rétturinn til að skiptast á upplýsingum með afritun jafngildi trúarbrögðum.
BBC hefur eftir stjórnarformanni safnaðarins, Gustav Nipe, að viðurkenning yfirvalda sé stórt skref en aðrir segja hana ekki hjálpa til við baráttuna gegn niðurhali á netinu.
Söfnuðurinn, sem segir að flýtilyklarnir fyrir afritun og límingu, CTRL+C og CTRL+V séu helg tákn safnaðarins, styður ekki ólögleg skráaskipti heldur segir áhersluna liggja á opinni dreifingu þekkingar til allra.
Stofnandi DMK, hinn 19 ára gamli heimspekistúdent og leiðtogi safnaðarins, Isak Gerson segist vonast til að skráaskipti muni njóta verndar sem trúarbrögð, enda séu „upplýsingar heilagar og afritun sakramenti“.
Vefsíða safnaðarins hefur legið niðri vegna álags síðan fréttirnar bárust.