Breski vísindamaðurinn Stephen Hawking gat ekki mætt á málþing vísindamanna, sem haldið var í tilefni af sjötugsafmæli hans, vegna veikinda. Í ávarpi sem tekið var upp fyrir máþingið hvatti Hawking mannkynið til að leita frekar út í alheiminn til að tryggja framtíð sína.
Vararektor Cambridge-háskóla, þar sem málþingið er haldið, tilkynti að Hawking hefði verið slæmur til heilsunnar undanfarið og hann hefði verið útskrifaður af sjúkrahúsi á föstudag.
Í stað þess að Hawking kæmi fram var spiluð upptaka af ávarpi hans. Hvatti hann vísindamennina til þess að horfa til glæsilegs ferils síns og framtíðar vísindanna í stað baráttu hans við veikindi. Hawking hefur þjáðst af hreyfitaugahrörnun frá því að hann var 21 árs gamall.
„Þetta hefur verið stórkostlegt að vera uppi á þessum tíma og stunda rannsóknir í eðlisfræðikenningum. Við verðum líka að halda áfram ferðum út í geiminn vegna framtíðar mannkynsins. Ég held ekki að við munum lifa af önnur þúsund ár án þess að flýja brothætta plánetu okkar,“ sagði Hawking.