Örar breytingar vegna hlýnunar

Aðmírálsfiðrildi sjást oft á Íslandi. Sunnar í Evrópu eru plöntur, …
Aðmírálsfiðrildi sjást oft á Íslandi. Sunnar í Evrópu eru plöntur, fiðrildi og fuglar að færa sig undan hlýnandi veðráttu.

Fiðrildi og fuglar hafa brugðist við hraðri hlýnun loftslags í Evrópu með breyttu fari, en þó ekki fylgt kuldanum alla leið. Hlýnunin hefur einnig valdið breytingum á háfjallaplöntum og það veldur áhyggjum. Þetta kemur fram í niðurstöðum tveggja rannsókna sem greint var frá í dag.

Tímaritið Nature Climate Change birti báðar skýrslurnar. Rannsóknirnar eru þær umfangsmestu hingað til sem beinst hafa að áhrifum hraðrar hnattrænnar hlýnunar á líffræðilega fjölbreytni í Evrópu.

Hópur vísindamanna undir forystu Vincent Devictor, við landsmiðstöð Frakklands um vísindarannsóknir (CNRS), komst að því að meðalhiti í Evrópu hefði hækkað um eitt stig á Celsíus á árabilinu 1990 til 2008. Þetta er mikil hækkun og fjórðungi meiri en meðaltalshækkun lofthita á allri síðustu öld.

Vísindamennirnir reiknuðu það út að til þess að lifa áfram við sama lofthita þyrftu lífverur að færa sig 249 km norðar á bóginn. Á þessu tímabili færðu fiðrildin sig einungis um 114 km og fuglategundir um 37 km.

Þúsundir áhugamanna um náttúruna öfluðu gagnanna og vörðu við það samtals 1,5 milljónum stunda úti í náttúrunni. Rannsókninni var ekki ætlað að skera úr um hvort þessar tegundir lífvera liðu vegna hlýnunarinnar. Engu að síður töldu skýrsluhöfundar ljóst að hætta væri á stofnminnkun hinna ýmsu tegunda.

Tegundir sem fylgja hlýnuninni ekki eftir með því að færa sig í ákjósanlegra umhverfi safna „loftslagsskuld“.

Hlýnunin mun á endanum hafa áhrif á hinar staðbundnu fæðukeðjur sem tegundirnar eru háðar, t.d. lirfur og gróður, og það mun hafa áhrif á það hversu vel tegundirnar geta aðlagast. Þá gerir landbúnaður erfiðara fyrir tegundirnar að finna svipuð búsvæði og þær yfirgáfu vegna hlýnunarinnar.

Í hinni rannsókninni voru skoðuð 867 plöntusýni af 60 fjallatindum víða um Evrópu til þess að leggja mat á áhrif hlýjasta áratugar sem sögur fara af. Ekki sáust miklar breytingar á árunum 2001 til 2008 sem rannsóknin náði til.

Þegar litið var á heildarmyndina í álfunni kom berlega í ljós að miklar breytingar eru að verða. Hitasæknar plöntur eru að ýta kuldasæknari plöntum í burtu á fjöllum og fikra sig sífellt hærra. 

Michael Gottfried, líffræðingur við Vínarháskóla, sem leiddi rannsóknina sagði að rannsóknarhópurinn hefði átt von á að finna fleiri hitakærar plöntur í meiri hæð en áður. „En við áttum ekki von á að sjá svona afgerandi breytingu á svo skömmum tíma,“ sagði Gottfried.

Hann sagði að svo virtist sem kuldasæknari plöntur fyndu ekki lengur fjöll við sitt hæfi. Rannsóknin byggðist á mestu plöntutalningu sem gerð hefur verið í Evrópu. Að henni komu 32 vísindamenn frá 13 löndum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert