Kynlíf verður betra með aldrinum

Nýleg rannsókn bendir til þess að eldri konur njóti kynlífs …
Nýleg rannsókn bendir til þess að eldri konur njóti kynlífs betur en þær yngri. Reuters

Kynlíf verður betra eftir því sem fólk eldist vegna þess að eldri konur fá ánægju út frá líkamlegri nálægð. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem unnin var af vísindamönnum við Háskólann í San Diego.

Rannsóknin leiddi í ljós að næstum því þriðja hver kona á áttræðisaldri er ánægð með kynlíf sitt þrátt fyrir að einungis fimmta hver kona á sama aldri hafi sagst vera með mikla kynhvöt.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að reynslan skili sér í betra kynlífi en 67% eldri kvenna sögðust fá fullnægingu oftast eða jafnvel alltaf þegar þær stunduðu kynlíf. Um 50% kvenna á áttræðisaldri sögðust fá fullnægingu oftast þegar þær stunduðu kynlíf.

Vísindamenn frá Háskólanum í San Diego rannsökuðu kynlífshegðun og ánægju á meðal 800 kvenna. Meðalaldur kvennanna sem tóku þátt í rannsókninni var 67 ár. Furðu vakti að mest mældist ánægjan á meðal annars vegar yngstu og hins vegar elstu kvennanna í rannsókninni.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í bandaríska læknatímaritinu The American Journal of Medicine.

Nánar má lesa um málið á vef Daily Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert