Nikótíntyggjó, plástrar og nefúði hjálpar fólki ekki frekar að hætta að reykja sígarettur til lengri tíma litið en ef fólk reynir sjálft að hætta. Þetta er niðurstaða rannsóknar vísindamanna við Harvard-háskóla.
Fylgst var með 787 manns sem höfðu nýlega hætt að reykja í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum. Niðurstaðan var að til lengri tíma litið féllu eins margir af þeim sem höfðu stuðst við nikótínlyf og þeir sem slepptu þeim, eða um þriðjungur.
Þá kom í ljós að stórreykingamenn sem notuðu nikótínlyf án þess að leita sér aðstoðar fagmanna voru tvöfalt líklegri til þess að falla en þeir sem ekki notuðu lyf.
„Þetta gæti bent til þess að sumir stórreykingamenn líti á nikótínlyf sem nokkurs konar töfralyf og þegar þeir gera sér grein fyrir því að þau eru það ekki standa þeir eftir berskjaldaðir í tilraun sinni til að hætta og dæmdir til að mistakast,“ segir í rannsókninni sem birtist í tímaritinu Tobacco Control.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að mjög fáir af þeim sem nota lyfin fylgja leiðbeiningum um að nota þau í átta vikur. Margir nota þau um skemmri tíma í staðinn.
„Þessi rannsókn sýnir þörfina á því að matvæla- og lyfjastofnun samþykki aðeins lyf sem sýnt hefur verið fram á að hjálpi reykingamönnum að hætta að reykja til lengri tíma litið og minnki styrkleika nikótíns til þess að draga úr sígarettufíkninni,“ segir Gregory Connolly, forstöðumaður alþjóðlegrar tóbaksvarnarmiðstöðvar Harvard-háskóla og einn höfunda rannsóknarinnar.