Milljarðar reikistjarna álíka massamiklar og jörðin

Nú virðist sem svo að það séu bókstaflega milljarðar reikistjarna …
Nú virðist sem svo að það séu bókstaflega milljarðar reikistjarna álíka massamiklar og jörðin á braut um stjörnurnar í Vetrarbrautinni. Ljósmynd/eso.org

Reikistjörnur á braut um aðrar stjörnur eru regla frekar en undantekning. Þetta segja þrír stjörnufræðingar frá European Southern Observatory (ESO) eftir að hafa skoðað milljónir stjarna í vetrarbrautinni á yfir sex ára tímabili. Niðurstöðurnar verða birtar í tímaritinu Nature sem kemur út á morgun.

Í frétt á vefsvæði ESO segir að alþjóðlegt teymi vísindamanna, þar á meðal þriggja stjörnufræðinga frá ESO, hafi notað svonefnd örlinsuhrif til að meta fjölda reikistjarna í vetrarbrautinni okkar.  „Í sex ár höfum við leitað að merkjum um fjarreikistjörnur við mælingar á örlinsuhrifum,“ segir  Arnaud Cassan, frá Institut d’Astrophysique de Paris og aðalhöfundur greinarinnar í Nature. „Gögnin segja okkur að reikistjörnur séu mun algengari en stjörnur í vetrarbrautinni, þótt ótrúlegt megi virðast. Við komumst líka að því að léttari reikistjörnur eins og risajarðir eða kaldir vatnsrisar á borð við Neptúnus, hljóta að vera algengari en þær sem þyngri eru.“

Niðurstöðurnar benda því til þess að meðalfjöldi reikistjarna á braut um stjörnu sé meiri en ein. Reikistjörnur eru því regla frekar en undantekning. „Eitt sinn héldum við að jörðin gæti verið einstök í vetrarbrautinni okkar. Nú virðist sem svo að það séu bókstaflega milljarðar reikistjarna álíka massamiklar og jörðin á braut um stjörnurnar í Vetrarbrautinni,“ segir Daniel Kubas, meðhöfundur greinarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka