Útlit er fyrir að vefsvæðin Wikipedia og Reddit verði lögð niður tímabundið þann 18. janúar, í táknrænum mótmælum gegn PIPA og SOPA frumvörpunum svonefndu, um höfundarrétt á netinu. Frumvörpin eru gríðarlega umdeild en samþykki Bandaríkjaþing þau mun það líklega hafa áhrif á netnotendur um allan heim.
Það sem Wikipedia og Reddit eiga sameiginlegt er að báðar eru þær s.k. samfélagssíður, sem byggjast á því að notendur deili sjálfir efni. Þessi grundvallarhugmynd að baki síðunum er einnig það sem gerir það að verkum að bandarísku frumvörpin að nýjum höfundarréttarlögum ógna tilvist þeirra, sem og annarra samfélagssíðna eins og YouTube, 9gag, Facebook, Twitter og SoundCloud, svo nokkrar séu nefndar.
Stjórnvöld víða um heim eru undir miklum þrýstingi frá skemmtanaiðnaðinum sem og hugbúnaðargeiranum, um að finna leiðir til að stöðva ólöglega dreifingu efnis á netinu. SOPA (Stop Online Piracy Act) frumvarpið var lagt fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings í október síðastliðnum, en PIPA (Protect Intellectual Property Act) er systurfrumvarp sem lagt var fyrir öldungadeildina. Verði þau samþykkt munu lögin "spila saman".
Ógn við tjáningarfrelsið á netinu
Ein helsta breytingin felst í því að ábyrgðin á birtingu höfundarréttarvarins efnis, sem samkvæmt núverandi lögum er einstaklingsins sem hleður því upp, færist samkvæmt nýju lögunum yfir á vefsíðuna sem hýsir það. Þar með munu bandaríska dómsmálaráðuneytið og handhafar höfundaréttar geta farið fram á lögbann á vefsíður sem sakaðar eru um að vera vettvangur fyrir birtingu höfundarréttarvarins efnis. Það gæti m.a. falist í því að auglýsendur og greiðslukerfi s.s. PayPal megi ekki eiga viðskipti við síðurnar, leitarvélar megi ekki vísa á þær eða lokað verði fyrir lénið.
Gagnrýnendur SOPA/PIPA laganna segja að þau byggist á þeirri gölluðu og hættulegu röksemdafærslu að ritskoðun sé ásættanleg sem vopn í baráttunni gegn höfundarréttarbrotum. Þeir segja að lögin séu ógn við tjáningarfrelsi á netinu því þau færi stjórnvöldum og skemmtanaiðnaðinum í Bandaríkjunum völd til meiriháttar ritskoðunar. Bent er á að lögin sé hægt að túlka afar vítt og verði þau að raunveruleika kunni það að leiða til þess að fjöldi samfélagssíðna, sem m.a. hafa átt stóran þátt í mótmælum almennings um allan heim síðustu misseri, muni hverfa af netinu.
Fjölmargir hafa orðið til þess að gagnrýna frumvörpin. Þar á meðal eru tæknirisarnir Mozilla og Google, sem benda m.a. á að síur sem verða notaðar í auknum mæli til að loka á ákveðin lén muni grafa undan öryggi á vefnum. Þá hefur lagaprófessorinn Laurence H. Tribe, við Harvard háskóla, skrifað opið bréf þar sem hann fullyrðir að SOPA löggjöfin muni grafa undan opinni og frjálsri miðlun upplýsinga á vefnum og brjóta gegn fyrsta ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna.
Vefsíður sem fá milljarða heimsókna mánaðarlega
Reddit var hinsvegar fyrsta vefsíðan til að boða aðgerðir. Stofnendur síðunnar blogguðu í vikunni um fyrirhuguð mótmæli sem felast í því að síðan, sem fær yfir 2 milljarða flettinga í hverjum mánuði, verði tekin niður þann 18. janúar frá kl. 8 um morguninn til kl. 8 um kvöldið, til að sýna með táknrænum hætti hvaða afleiðingar lögin gætu haft.
Þrýstingur hefur verið á fleiri samfélagssíður að feta í þeirra fótspor og nú ræða aðstandendur alfræðisíðunnar Wikipediu að gera slíkt hið sama. Jimmy Wales, stofnandi Wikipediu, svaraði áskoruninni á spjalli Wikipedia samfélagins í dag á þann veg að hann styddi hugmyndina heilshugar og vildi helst loka síðunni á sama tíma og Reddit yrði lokað svo skilaboðin kæmust sem sterklegast til skila.